Yfir 80 þúsund manns hafa yfirgefið Kabúl, höfuðborg Afganistans, síðan 14. ágúst.
Mikill fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan alþjóðaflugvöllinn í borginni til að freista þess að komast úr landi og um leið í burtu frá talíbönum.
Að minnsta kosti átta manns hafa látist í ringulreiðinni á flugvellinum.
Talíbanar hafa verið sakaðir um að meina fólki að fara á flugvöllinn eða reyna að hægja á för þess.
Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti í gær að brottflutningi fólks frá Afganistan muni ljúka í næstu viku og hefur það aukið á kapphlaupið um að yfirgefa landið.
„Því fyrr sem við getum lokið málinu, því betra…hver dagur í landinu eykur hættuna fyrir hermenn okkar,” sagði Biden.