Hryðjuverkasamtökin Isis-K hafa lýst yfir ábyrgð á árásunum tveimur í Kabúl í Afganistan í dag.
Nýjustu fréttir herma að um 60 Afganir hafi látist í sprengingunum og tólf bandarískir hermenn, um 150 eru særðir.
Sprengirnar voru tvær. Fyrri sprengingin varð við hótel þar sem breskar hersveitir og blaðamenn halda til og sú síðari við svokallað Abbey-hlið rétt fyrir utan flugvöllinn þar sem sjálfsmorðssprengja sprakk.
Isis-K eru þekktir fyrir sjálfsmorðssprengjuárásir og eru þeir taldir vera öfgakenndasti og ofbeldisfyllsti hópur jihadista í Afganistan sem berjast fyrir svokölluðu heilögu stríði.
Samtökin urðu til árið 2015 þegar Isis-samtökin voru á hápunkti valdatíðar sinnar í Írak og í Sýrlandi. Um er að ræða Pakistana og Afgana sem gengu úr röðum talíabana af því að þeim fannst þeir ekki nægilega róttækir.
Ódæðisverk Isis-K eru ein þau verstu sem hafa orðið í Afganistan síðustu ár, meðal annars beinast árásir þeirra að stúlknaskólum og fæðingardeildum á spítölum þar sem þeir eru sagðir hafa skotið barnshafandi konur og hjúkrunarfræðinga til bana.
Ólíkt talíbönum, sem einblína á aðgerðir innan Afganistan, eru Isis-K hluti af alþjóðlegu neti Isis-öfgamanna sem hafa það að markmiði að gera árásir á allt sem er vestrænt og alþjóðlegt.
Höfuðstöðvar þeirra eru í Nangarhar-héraði í austurhluta Afganistan þar sem þeir hafa góðan aðgang að leiðum til þess að smygla fólki og eiturlyfjum yfir til Pakistan.
Nú er talið að um þrjú þúsund hermenn séu í hryðjuverkasamtökunum og stafar bæði alþjóðlegu herliði sem enn er í Afganistan og talíbönum mikil ógn af Isis-K.