John Kirby, upplýsingafulltrúi hjá Pentagon, greindi frá því í twitterfærslu nú fyrir skömmu að sprenging hafi orðið rétt fyrir utan flugvöllinn í höfuðborg Afganistan, Kabúl.
Bandarískum stjórnvöldum var þá kunnugt um sprengjuhótanir sem höfðu borist nokkrum klukkustundum fyrr gagnvart Kabúl-flugvelli að því er AFP greinir frá.
Segir Kirby að ástandið sé óljóst að svo stöddu.
We can confirm an explosion outside Kabul airport. Casualties are unclear at this time. We will provide additional details when we can.
— John Kirby (@PentagonPresSec) August 26, 2021
Ljóst er að einhverjir hafa særst í árásinni ef marka má twitterfærslur Barzan Sadiq, blaðamanns Kurdistan 24.
The moment when the explosion occurred at #Kabul airport. pic.twitter.com/m6uB22Yg7p
— Barzan Sadiq (@BarzanSadiq) August 26, 2021
Uppfært kl. 14.17:
Sprengingin varð við svokallað Abbey-hlið hjá Kabúl-flugvelli, þar sem breskar hersveitir hafa staðið vaktina síðustu daga. Var þetta eitt þeirra þriggja hliða sem stóðu undir sprengjuhótunum fyrr í dag. BBC greinir frá.
Bandarískur embættismaður tjáði þá fréttastofu Reuters að um sjálfsvígsárás hafi verið að ræða og staðfestir Hvíta húsið að Joe Biden forseti Bandaríkjanna sé upplýstur um gang mála.
Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bretlands segir í samtali við BBC að ekki sé vitað um mannfall í röðum breska hersins, sem heldur til á svæðinu. Þá bárust einnig tilkynningar um byssuskot á svæðinu.
Hermenn úr í það minnsta þremur hersveitum Bandaríkjamanna eru særðir eftir árásina, að því er fréttastofa Fox News greinir frá.
Nokkrum klukkustundum áður en árásin varð voru Bandaríkjamenn á svæðinu beðnir að yfirgefa flugvöllinn hið snarasta vegna sprengjuhótana. Þá hafði Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varað við hryðjuverkaógn á svæðinu í gær.