Joe Biden Bandaríkjaforseti staðfesti rétt í þessu á blaðamannafundi að allt herlið yrði dregið frá Afganistan fyrir 31. ágúst.
Tólf starfsmenn herliðs Bandaríkjanna létust í dag í hryðjuverkaárásum í Kabúl. Biden sagðist harma dauða þeirra og sagði þá látnu vera hetjur.
Hryðjuverkasamtökin Isis-K lýstu yfir ábyrgð á árásunum. „Við munum finna ykkur og láta ykkur gjalda fyrir það sem þið hafið gert,“ sagði Biden á fundinum. „Við munum ekki fyrirgefa og við munum ekki gleyma.“
Biden sagði hefndaraðgerðir gegn Isis-K vera í skoðun en að hryðjuverkasamtök myndu ekki hafa áhrif á flutningin frá Afganistan.
Bandaríski herinn hefur flutt um sjö þúsund Afgana og bandaríska ríkisborgara í burtu úr landi frá flugvellinum í Kabúl síðustu tólf klukkutíma.