Að minnsta kosti 72 eru látnir eftir sprengingarnar tvær sem urðu á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í Afganistan í gær.
„Margar konur og börn eru á meðal fórnarlambanna. Flestir þeirra sem særðust eru í miklu áfalli,” sagði fyrrverandi starfsmaður heilbrigðisráðuneytis Afganistans í samtali við AFP-fréttastofuna.
Hann bætti að aðeins þeir sem voru fluttir á sjúkrahús séu á skrá yfir hina látnu.
Þrettán bandarískir hermenn eru á meðal þeirra sem létust.
Video : Right now the situation at the #KabulAiport.
— Abdulhaq Omeri (@AbdulhaqOmeri) August 27, 2021
After two deadly explosion yesterday. #Kabul #Afghanistan pic.twitter.com/tc6bJekAkQ
Uppfært kl. 7.10:
BBC greinir frá því að talið sé að að minnsta kosti 90 séu látnir eftir sprengingarnar og yfir 150 hafi slasast.
Bretar segjast ætla að ljúka við að flytja sitt fólk á brott frá Afganistan á næstu klukkustundum. Það eru í kringum þúsund manns, að sögn varnarmálaráðherrans Ben Wallace.
Spánverjar hafa þegar lokið við að flytja sitt fólk á brott eftir að tvær flugvélar lentu í Dubai í morgun.
Yfir 100 þúsund manns hefur verið flogið út úr Afganistan síðan talíbanar hrifsuðu til sín völdin í landinu 15. ágúst.