Réðu skipuleggjanda árásinnar af dögum

Manni komið undir læknishendur skömmu eftir hruðjuverkaárásina á alþjóðaflugvöllinn í …
Manni komið undir læknishendur skömmu eftir hruðjuverkaárásina á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl, þar sem þúsundir freista þess nú að komast burt úr landi. AFP

Bandaríkjaher segir að hann hafi orðið skipuleggjanda hryðjuverkaárásarinnar á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í liðinni viku að bana. Drónaárás hafi verið gerð að aðsetri mannsins í Nangarhar-héraði í Afganistan.

Maðurinn var í fararbroddi IS-K hryðjuverkasamtakanna svokölluðu, Afganistan-deild hinna alræmdu ISIS-samtaka. Samtökin eru sögð hættulegustu samtök vígamanna í öllu landinu.

Allt að 170 létust í hryðjuverkaárásinni á Kabúl-flugvelli, að því er segir í frétt BBC, þar af 13 hermenn bandaríska hersins. Á fimmtudag sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti að hver sá sem stæði að baki árásinni yrði eltur uppi.

„Við munum ekki fyrirgefa og við munum ekki gleyma. Við munum elta þig uppi og láta þig gjalda fyrir gjörðir þínar,“ sagði Biden.

Síðustu tvær vikur hefur Bandaríkjaher ferjað yfir 100 þúsund manns frá Afganistan í kjölfar valdtöku talíbana. Bandaríks stjórnvöld hafa gefið sér frest til mánaðamóta til þess að ferja fólk af landi brott með loftbrú.

Allmörg ríki, þar á meðal Svíar, Frakkar, Svisslendingar og fleiri aðildarríki NATO, hafa nú þegar hætt slíku þar sem aðstæður á alþjóðaflugvellinum í Kabúl eru sagðar of flóknar viðfangs og of hættulegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert