Börn létust í drónaárás Bandaríkjanna

Að minnsta kosti þrjú börn voru á meðal þeirra sem létust í drónaárás Bandaríkjahers í Kabúl, að sögn vitna. Árásin beindist gegn bardagamönnum Ríkis íslams sem eru helstu andstæðingar talíbana.

Í það minnsta sex almennir borgarar létust í árásinni en sumir fjölmiðlar segja að níu manns í sömu fjölskyldu hafi týnt lífi, þar af sex börn. 

Al Jazeera greinir frá þessu.

Bandarísk yfirvöld segjast meðvituð um mannfall óbreyttra borgara í árásinni en segja að fjöldi árásarmanna hafi einnig verið drepnir. Þeir voru, að sögn bandarískra yfirvalda að búa sig undir að ráðast á flugvöllinn í Kabúl. 

Eins og Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana, greinir frá í meðfylgjandi myndskeiði vinna þeir nú að því að mynda nýja ríkisstjórn í Afganistan. Hann segir það krefjast þolinmæði.

Eldflaugar og sjálfsmorðsárásir

Árásin var framkvæmd eftir að bandarískir hermenn sáu fólk hlaða skott bíls sprengiefnum nærri flugvellinum í Kabúl. Dróni hersins skaut þá eldflaug að bílnum. 

Nokkuð hefur verið um átök í Kabúl upp á síðkastið. Öfga­hóp­ur­inn Ríki Íslams stóð fyr­ir sjálfs­morðssprengju­árás í síðustu viku en þá féllu 100 manns, þeirra á meðal 13 banda­rísk­ir her­menn. Joe Biden Bandaríkjaforseti hef­ur varað við því að mikl­ar lík­ur séu á frek­ari árás­um. 

Þá var eldflaugum skotið í átt að flugvellinum í Kabúl í morgun.

Frá Kabúl í morgun.
Frá Kabúl í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert