Fellibylurinn Ída „mun rústa öllu sem hann kemst í snertingu við,“ segir Joe Biden Bandaríkjaforseti um Ídu sem skall á Lousiana í Bandaríkjunum í gær.
Dregið hefur úr krafti Ídu en útlit er fyrir að fellibylurinn muni samt sem áður halda áfram að valda usla. Í dag er veruleg hætta á miklum flóðum sem geta stofnað íbúum í Lousiana og víðar í hættu.
Fellibylsviðvörun er ekki lengur í gildi í Lousiana en nú gildir þar viðvörun vegna hitabeltisstorms. Útlit er fyrir að leifar af Ídu nái landi í Tennessee í dag og hafa íbúar á svæðinu verið beðnir um að búa sig undir óveður af þeim sökum.
Eins og greint var frá í morgun varð minnst milljón heimila rafmagnslaus í nótt vegna Ídu. Þá er í það minnsta einn látinn vegna fellibylsins.