Flugskeytið lenti á bíl fullum af börnum

Þegar Ezmarai Ahmadi sneri aftur heim frá vinnu á sunnudagskvöldið tóku synir hans, dætur og frænkur og frændar á barnsaldri kát á móti honum. Hann keyrði hvíta stallbakinn sinn að húsi fjölskyldunnar í Kwaja Burga, hverfi í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og lét elsta son sinn fá lyklana. 

Börnin hröðuðu sér inn í bílinn sem sonurinn ætlaði að leggja og létu sem þau væru á leið í ævintýri. Ezmarai fylgdist með. 

Skyndilega birtist flugskeyti á himni og nálgaðist þau óðfluga. Það lenti á bílnum og létust 10 manns á augabragði. 

Hræðileg mistök?

Flugskeytið var frá Bandaríkjamönnum sem tilkynntu á sunnudag að þeir hefðu sprengt í loft upp bíl sem hlaðinn var af sprengiefnum. Í gær fór ýmislegt að benda til þess að Bandaríkjamenn hefðu gert hræðileg mistök. 

„Flugskeytið sprakk á bíl sem var fullur af börnum,“ sagði Aimal Ahmadi, bróðir Ezmarai. „Það drap þau öll.“

Aimal sagði að 10 manns úr sömu fjölskyldu hefðu látist, þar af hans eigin dóttir og fimm önnur börn. 

Bandaríski herinn segist meðvitaður um það að almennir borgarar hafi týnt lífum í árásinni. 

Herinn segir mögulegt að sprengiefni hafi verið í bílnum

Aimail þykir ótrúlegt að Bandaríkjamenn hafi talið bróður hans hryðjuverkamann. Ezmarai starfaði sem verkfræðingur og reyndi, eins og margir Afganir, sitt besta til þess að ná endum saman á þeim erfiðu tímum sem hafa farið í hönd eftir að talíbanar náðu völdum í landinu.

Bandaríski herinn hefur gefið það út að „óljóst“ sé hvað hafi komið fyrir. Nú sé það rannsakað en útlit sé fyrir að aðgerðir þeirra hafi truflað fyrirhugaða árás Ríkis íslams á flugvöllinn í Kabúl.

„Við vitum að það urðu veruklega öflugar sprengingar í kjölfar þess að bíllinn sprakk. Það gefur til kynna að mikið sprengiefni hafi verið í bílnum og það hafi valdið fleiri dauðsföllum en ella,“ sagði Bill Urban, talsmaður Bandaríkjahers, í yfirlýsingu.

„Halda þeir allir að börnin okkar séu hryðjuverkamenn?“

Rashid Noori, nágranni Ezmarai, gaf lítið fyrir skýringar Bandaríkjamanna á atvikinu.

„Talíbanar drepa okkur, hermenn Ríkis íslam gera það líka. Þá drepa Bandaríkjamenn okkur líka. Halda þeir að öll börnin okkar séu hryðjuverkamenn?“ spurði Rashid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert