Rýmingin gekk ekki að óskum

Kenneth McKenzie, yfirmaður heraflans í Afganistan.
Kenneth McKenzie, yfirmaður heraflans í Afganistan. AFP

Rýmingu bandarískra hersveita frá Afganistan lauk fyrr í kvöld. Að sögn Kenneth McKenzie, yfirmanns heraflans í Afganistan, tókst Bandaríkjamönnum ekki að flytja þann fjölda fólks burt sem fyrirhugað var.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði áður gefið út yfirlýsingu þess efnis að Bandaríkin myndu klára rýmingu bandarískra hersveita úr Afganistan fyrir 31. ágúst. Síðasta flugvélin fór í loftið með herafla Bandaríkjanna einni mínútu fyrir miðnætti að staðartíma í Kabúl.

Markaði flugtakið endann á 20 ára hernaðaríhlutun Bandaríkjanna í landinu.

Frá því í júlí hafa yfir 120 þúsund einstaklingar verið fluttir burt frá Afganistan. Síðustu daga hefur þó flutningur fólks frá landinu reynst erfiðari, sérstaklega í kjölfar árása Ríkis íslams á flugvöllinn í dag og síðustu viku.

„Við náðum ekki öllum burt sem við vildum ná burt,“ sagði McKenzie.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert