Lög sem gera þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu ólöglegt, og veita ekki undanþágur í tilvikum sifjaspella eða nauðgana, tóku gildi í Texas dag. Hæstiréttur Bandaríkjanna brást ekki við neyðarbeiðni um að koma í veg fyrir gildistöku laganna. Einungis má gera undantekningar á baninu ef heilsu konunnar er talið ógnað af meðgöngunni.
Repúblikaninn Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, samþykkti lögin í maímánuði. Þau leggja bann við þungunarrofi eftir að hjartsláttur fósturs verður greinanlegur. Það er almennt á sjöttu viku meðgöngu. Lögin gera Texas að því ríki Bandaríkjanna þar sem hvað erfiðast er að komast í þungunarrof.
Um 85 til 90% þeirra sem fara í þungunarrof í Texas eru komin að minnsta kosti sex vikur á leið þegar þungunarrof er framkvæmt. Af þeim sökum er útlit fyrir að lögin banni langflest þungunarrof innan ríkisins.
Önnur ríki sem hafa sóst eftir því að takmarka aðgengi að þungunarrofi snemma á meðgöngu hafa ekki komsit upp með það vegna Roe v. Wade dóms hæstaréttar sem féll árið 1973. Með dómnum var þungunarrof gert heimilt á meðan fóstur er ekki lífvænlegt sem er almennt ekki staðan fyrr en á 22 til 24 viku meðgöngu.
Lögin í Texas eru óvenjuleg að því leiti að þau heimila almenningi að framfylgja lögunum. Þannig geta almennir borgarar höfðað einkamál á hendur þeim sem þeir telja að hafi gerst brotlegir við lögin.