Kórónuveiruafbrigðið Mu (B.1.621) er nú undir smásjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það greindist fyrst í Kólumbíu og hafa tilfelli þess greinst í Suður-Afríku og Evrópu.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefur út skýrslu um stöðuna á faraldrinum vikulega. Í nýjustu skýrslunni kemur fram að Mu gæti átt auðveldara með að leika á mótefnasvarið sem bóluefni gegn Covid-19 veita en upphaflegt afbrigði kórónuveirunnar.
„Frá því að fyrst voru borin kennsl á afbrigðið í janúarmánuði hafa stök tilvik Mu-afbrigðisins greinst hér og þar sem og stærri hópsmit í löndum í Suður-Ameríku og Evrópu.“
Á alþjóðavísu eru tilvik Mu einungis 0,1% virkra smita en í Kólumbíu og Ecuador hefur hlutfall Mu á meðal virkra smita aukist stöðugt. Það stendur nú í 39% í Kólumbíu og 13% í Ecuador.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segist ætla að fylgjast grannt með þróun Mu, rétt eins og fjórum öðrum afbrigðum veirunnar sem hafa valdið usla. Þau eru Alpha, Beta, Gamma og Delta.
Eins og greint var frá í gær fylgjast suðurafrískir vísindamenn að auki með C.1.2. afbrigðinu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur það ekki til sérstakrar skoðunar.