Biden fordæmir nýju þungunarrofslögin

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmir ný lög í Texas sem banna konum að rjúfa meðgöngu eftir að sjöttu viku meðgöngu hefur verið náð. Hann segist ætla að verja stjórnarskrárvarinn rétt kvenna.

BBC greinir frá.

Biden segir lögin vera öfgakennd og að þau brjóti harkalega gegn rétti bandarískra kvenna um aðgang að heilbrigðisþjónustu. Hann vill viðhalda þeim rétti sem konum var gefinn með hinu fræga Roe v. Wade-máli frá áttunda áratugnum, þar sem konur öðluðust þann rétt, með ákvörðun hæstaréttar Bandaríkjanna, að rjúfa meðgöngu allt þar til fóstur gæti lifað utan móðurkviðs, sem vanalega er miðað við 22. - 24. viku.

Hæstiréttur Bandaríkjanna, sem sker úr um lögmæti lagabálka með hliðsjón af bandarísku stjórnarskránni, hafnaði því í gær að koma í veg fyrir að nýju lögin tækju gildi.

Dómari við hæstarétt segir niðurstöðuna „sláandi“

Nýju lögin heimila þunguðum konum ekki að rjúfa meðgöngu, jafnvel þó hún hafi komið til vegna nauðgunar eða sifjaspells. Aðeins má rjúfa meðgöngu ef það stefnir lífi konunnar í hættu. Þá gera nýju lögin hverjum sem er kleift að kæra lækna sem aðstoða við meðgöngurof að sex viknum liðnum.

Enda hafa læknar og kvenréttindasinnar í Bandaríkjunum, sem og víðar, mótmælt nýju lögunum harðlega. Þau eru sögð þau íhaldssömustu í öllum Bandaríkjunum og tóku gildi eftir að hinn íhaldssami hæstiréttur Bandaríkjanna ansaði ekki beiðni um neyðaráfrýjun.

Þess er þá krafist af ýmsum aðilum sem veita konum heilbrigðisþjónustu í Texas að réttaráhrifa laganna verði frestað af hálfu hæstaréttarins.

Hæstiréttardómarinn Sonia Sotomayor andmælti ákvörðun dómstólsins í sératkvæði.
Hæstiréttardómarinn Sonia Sotomayor andmælti ákvörðun dómstólsins í sératkvæði. AFP

Þessu hafnaði rétturinn þó og sagði í óundirrituðu svari að meirihlutaákvörðun réttarins væri ekki byggð á neinu áliti um hvort lög Texas stæðust stjórnarskrá. Hin frjálslynda Sonia Sotomayor skilaði séráliti samhliða áliti réttarins þar sem hún segir ákvörðun hans sláandi.

„Hafandi tækifæri til þess að banna grimmileg lög, sem fara gegn stjórnarskrárvörðum rétti kvenna, hefur meirihluti dómara við þennan rétt kosið að stinga höfðinu í sandinn,“ sagði Sotomayor í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert