Hermenn í Gíneu stóðu í dag fyrir valdaráni þar í landi, steyptu forseta landsins, Alpha Conde af stóli og tóku hann höndum. Þeir tilkynntu í dag um ótímabundið útgöngubann á landsvísu.
Í tilkynningu frá hermönnunum, sem kalla sig „Þjóðarnefnd sátta og þróunar“, kemur fram að ráðherrum landsins verði skipt út fyrir aðila innan herþjónustunnar og mun herinn brátt kalla til fundar með ríkisstjórn Conde í höfuðborg landsins, Conakry. Tilkynningin var lesin upp í ríkissjónvarpi Gíneu.
Varnarmálaráðuneyti Gíneu segir þó að varðsveit forsetans hafi stöðvað meint valdarán og að heröflum sem trygg eru forsetanum hafi tekist að „vinna bug á ógninni“, segir á vef BBC. Þó hefur birst myndskeið af Conde í haldi hersins, berfættum á sófa. Fréttir af valdaráninu bárust í kjölfar tilkynninga um skothvelli í grennd við forsetabústaðinn svo klukkustundum skipti.