Segjast hafa náð Panjshir á sitt vald

Andstæðingar talíbana 1. september síðastliðinn.
Andstæðingar talíbana 1. september síðastliðinn. AFP

Talíbanar segjast hafa náð að sölsa undir sig síðasta landsvæðið í Afganistan sem ekki var undir þeirra stjórn, eða Panjshir-dal. Andstæðingar talíbana, NRF, eru ekki á sama máli og segja bardaga enn vera í gangi.

„Með þessum sigri en landið okkar algjörlega orðið laust við kviksyndi stríðsins,“ sagði Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana.

Í ljósmynd sem var birt á samfélagsmiðlum sjást talíbanar hjá skrifstofu ríkisstjórans í Pansjshir-héraði.

Andstæðingarnir í NRF, sem samanstanda af vígamönnum sem eru andvígir talíbönum og fyrrverandi meðlimum úr stjórnarher Afganistans, segja aftur á móti sína menn enn til staðar á svæðum víðsvegar um Panjshir-dal og að þeir haldi baráttunni áfram.

„Við viljum fullvissa almenning í Afganistan um að baráttan gegn talíbönum og fylgismönnum þeirra heldur áfram þangað til réttlæti og frelsi verður náð,“ sagði í tísti frá NRF.

Seint í gærkvöldi viðurkenndu þeir að hafa misst stór landsvæði í Panjshir og óskuðu eftir vopnahléi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert