Fimm ára dómur fyrir að smita aðra af Covid

Covid-sjúklingur fluttur í borginni Ho Chi Minh.
Covid-sjúklingur fluttur í borginni Ho Chi Minh. AFP

Víetnamskur maður hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að smita aðra af kórónuveirunni eftir að hann braut reglur um sóttkví.

Le Van Tri, sem er 28 ára, var dæmdur fyrir að „dreifa hættulega smitandi sjúkdómum til annars fólks“ eftir að hann ferðaðist heim til sín í héraðinu Ca Mau frá borginni Ho Chi Minh í júlí þar sem kórónuveiran hafði verið skæðari.

Hann var sakaður um að hafa brotið reglur um að vera í heimasóttkví í 21 dag en hann greindist með Covid-19 sjöunda júlí.

BBC greinir frá því að eftir komu sína til Ca Mau á mótorhjóli hafi Tri einnig logið til um ferðasögu sína er hann fyllti út eyðublað stjórnvalda vegna Covid.

„Brot Tri á reglum um heimasóttkví varð til þess að margir smituðust af Covid-19 og ein manneskja lést 7. ágúst 2021,“ sagði í skýrslu fyrir dómi.

Í ríkisfjölmiðli kom fram að átta manns hefðu smitast af Tri.

Sjúkrastarfsmenn á ferðinni í borginni Ho Chi Minh.
Sjúkrastarfsmenn á ferðinni í borginni Ho Chi Minh. AFP

Kórónuveirusmit í Víetnam voru tiltölulega fá í fyrra en núna er landið að glíma við mestu útbreiðsluna til þessa. Næstum 540 þúsund manns hafa smitast og yfir 13 þúsund látist.

Flest smitin og dauðsföllin hafa orðið síðan í lok apríl á þessu ári.

Þó nokkrir hafa áður verið dæmdir fyrir að smita aðra af kórónuveirunni í Víetnam.

Í júlí var 32 ára maður, Hai Duong, dæmdur í 18 mánaða fangelsi og í mars hlaut flugfreyja hjá Víetnam Airlines tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir sömu sakir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert