Tuttugu fyrir rétt vegna hryðjuverka í París

Vopnaðir lögreglumenn fyrir utan réttarsalinn í París.
Vopnaðir lögreglumenn fyrir utan réttarsalinn í París. AFP

Umfangsmestu réttarhöldin í Frakklandi í langan tíma hefjast í dag þegar tuttugu manns grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásunum í París árið 2015 þar sem 130 manns létust, verða leiddir fyrir rétt.

Búist er við því að réttarhöldin standi yfir í níu mánuði og verði frönsku þjóðinni erfið, enda er hún er enn í sárum eftir árásirnar.

Um var að ræða sjálfsvígsárás og skotárásir þriggja hópa vígamanna á bari, veitingastaði og tónleikastaðinn Bataclan. Skipulagningin fór fram í Sýrlandi og var það Ríki íslams sem síðar lýsti ábyrgð á ódæðinu á hendur sér.

Dómshúsið í París þar sem réttarhöldin fara fram.
Dómshúsið í París þar sem réttarhöldin fara fram. AFP

Eini árásarmaðurinn sem er enn á lífi, Salah Abdeslam, mætir í réttarsalinn ásamt 13 öðrum sakborningum í miðborg Parísar. Sex aðrir verða staddir annars staðar á meðan á réttarhöldunum stendur.

Tólf af þeim 20 sem réttað verður yfir, þar á meðal Abdeslam, eiga yfir höfði sér lífstíðardóma verði þeir fundnir sekir.

Mikil öryggisgæsla er í kringum réttarsalinn. Svæðið þar í kring hefur verið girt af og stendur vopnuð lögregla vörð með hunda sér við hlið.

AFP

„Við erum að stíga út í óvissuna,” sagði Arthur Deneouveaux, einn þeirra sem komst lífs af á tónleikastaðnum Bataclan. Hann er formaður samtaka fórnarlamba árásarinnar, „Líf fyrir París”.

„Við erum spennt yfir því að réttarhöldin eru að hefjast en veltum fyrir okkur hvernig þetta mun ganga fyrir sig næstu níu mánuðina,” sagði hann.

Réttarhöldin standa yfir þangað til í maí á næsta ári. Um 330 lögmenn koma að málinu og 300 fórnarlömb, auk þess sem fyrrverandi forseti Frakklands, Francois Hollande, ber vitni í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka