„Hann var minn gæi“

Í dag eru 20 ár liðin frá árásunum á tvíburaturnanna …
Í dag eru 20 ár liðin frá árásunum á tvíburaturnanna í New York. Í samhæfðum árásum 19 flugræningja, tókst hryðjuverkasamtökunum al-Quaeda að verða tæplega 3 þúsund manns að bana. AFP

Réttarhöld yfir Khalid Sheikh Mohammed, manninum sem sakaður er um að hafa skipulagt hryðjuverkin 11. september 2001, standa nú yfir.

Frank Pellegrino, fyrrverandi fulltrúi hjá alríkislögreglunni FBI, vann hörðum höndum að því á tíunda áratugnum að taka Mohammed, sem gjarnan er kallaður KSM, höndum. Pellegrino segist, í samtali við BBC, oft velta því fyrir sér hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir árásirnar 11. september, sem kostuðu tæplega 3 þúsund manns lífið.

„Hann var minn gæi,“ segir Pellgrino við BBC.

Frank Pellegrino sat á hótelherbergi í Malasíu þegar hann sá fyrst fréttir af því að flogið hafi verið inn í tvíburaturnana í New York.

„Guð almáttugur, þetta hlýtur að vera Khalid Sheikh Mohammed,“ hugsaði hann með sér.

Þá hafði Pellegrino verið á höttunum eftir KSM í ein þrjátíu ár. Nú, þegar réttarhöld yfir honum eru loks hafin, 20 árum eftir hryðjuverkin árið 2001, segja fróðir menn að mögulega líði önnur 20 ár þar til málinu lyktir.

Frank Pellegrino árið 1987 annars vegar og 2020 hins vegar.
Frank Pellegrino árið 1987 annars vegar og 2020 hins vegar. Ljósmynd/Frank Pellegrino

Fer ekki á milli mála að hann sé skipuleggjandinn

Þótt Osama Bin Laden, þáverandi leiðtogi al-Quaeda, sé sá sem einna helst er tengdur við árásirnar 11. september, var það KSM sem skipulagði árásirnar og átti hugmyndina að þeim. Svo er sagan a.m.k. sögð í rannsóknarskýrslu Bandaríkjaþings um árásirnar. Þar segir að KSM sé sá sem lagði á ráðin um árásirnar og kynnti hugmyndir sínar fyrir al-Quaeda.

KSM var fæddur í Kúveit og gekk til náms í Bandaríkjunum áður en hann liðsinnti íslömskum uppreisnarhermönnum í Afganistan á níunda áratugnum, þegar landið var laut yfirráðum Sovétríkjanna.

Mörgum árum áður en árásirnar á tvíburaturnanna voru gerðar, hafði Frank Pellegrino komist á snoðir um KSM. Pellgrino hafði verið falið að rannsaka sprengjuárás sem gerð var á tvíburaturnanna árið 1993, þar sem sex manns létust og ríflega þúsund særðust. Þá kom í ljós að KSM hafi millifært fé á einn þeirra sem stóðu að sprengjuárásinni.

Svo dúkkaði nafn KSM upp aftur og aftur, meðal annars í tengslum við fyrirhugað sprengjutilræði gegn fjölmörgum farþegaflugvélum á leið sinni yfir Kyrrahafið. Þegar komið var fram undir miðjan tíunda áratuginn var Pellegrino kominn á hælana á KSM og elti hann til Katar.

Khalid Sheikh Mohammed.
Khalid Sheikh Mohammed. AFP

Vildu ekki „rugga bátnum“

Pellegrino fór ásamt fylgdarliði í gegnum Óman, syðst á Arabíuskaga, og þaðan inn í Katar þar sem handtaka átti KSM. Pellegrino lýsir því að flugvél hafi verið til reiðu til þess að ferja fangann burt úr landi en ræðismenn Bandaríkjanna á svæðinu settu sig upp á móti aðgerðum alríkislögreglunnar.

„Ætli þeir hafi ekki haldið að verið væri að rugga bátnum of mikið með þessu,“ segir Pellegrino.

Því næst tjáðu ræðismennirnir Pellegrino að yfirvöld í Katar hafi misst sjónar á KSM. Hann var sloppinn.

„Það var mikil óánægja með þetta. Við vissum að þetta eina tækifæri hafði runnið okkur úr greipum.“

Þrátt fyrir að hafa víðtæk tengsl við aðra þekkta hryðjuverkamenn komst KSM ekki á lista bandarískra yfirvalda yfir hættulegustu hryðjuverkamennina.

„Mér var bara sagt að þar væru nógu margir hryðjuverkamenn nú þegar,“ segir Pellegrino.

Flóttinn undan Bandaríkjamönnum leiddi til fundar við Bin Laden

KSM virðist hafa verið gert viðvart um áhuga Bandaríkjamanna í hans garð og flúði hann því frá Katar til Afganistan. Árin á eftir dúkkaði nafn KSM oft upp, meðal annars í símaskrám hryðjuverkamanna sem Bandaríkin handtóku og færðu til yfirheyrslu. Það benti til þess að KSM hefði mikil tengsl og væri mjög hættulegur.

Eftir að ágangur Bandaríkjamanna varð til þess að KSM flúði til Afganistan, hitti hann loks Osama Bin Laden og kynnti fyrir honum hugmyndir sínar um að ræna farþegaflugvélum og fljúga þeim á þekkt kennileiti vestra.

Örfáum misserum síðar rann upp þriðjudagurinn 11. september 2001 og tæplega 3 þúsund manns týndu lífi.

Það var þá sem það rann upp fyrir bandarískum stjórnvöldum hve stórtækur KSM væri í raun og veru.

„Allir vissu að þetta væri „gæinn hans Franks“ sem gerði þessar árásir,“ útskýrir hann sjálfur.

„Þegar við svo gengum úr skugga að þetta væru hans verk varð enginn eins harmi sleginn og ég,“ segir Pellegrino.

Khalid Sheikh Mohammed þegar hann var handtekinn árið 2003.
Khalid Sheikh Mohammed þegar hann var handtekinn árið 2003.

Linnulausar pyndingar

Árið 2003 var KSM svo eltur uppi og handtekinn í Pakistan. Pellegrino segist hafa vonað að hann kæmi fyrir dómara fyrir þær sakir sem hann hafði sjálfur ætlað að negla hann fyrir árin á undan.

KSM hvarf þó sporlaust um sama leyti. Bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafði tekið hann til leynilegrar herstöðvar (e. black site) og beitt því sem kallað var á ensku „enhanced interrogation techniques“. Hann var pyndaður.

KSM var mátti þola linnulausar pyndingar af hálfu CIA; 183 vatnspyndingar sem sagðar eru líkjast drukknun, næringargjöf gengum endaþarm, haldið var fyrir honum vöku marga daga í senn, hann þurfti að vera nakinn öllum stundum og honum var hótað því að börn hans yrðu myrt. Er þetta meðal þess sem sagt er munu flækja réttarhöld yfir honum, þar sem hann mátti þola grimmilega meðferð þeirra sem nú rétta yfir honum.

Í prísundinni játaði KSM að hafa tekið þátt í að skipuleggja fjölmörg hryðjuverk. Hins vegar komst rannsóknarnefnd öldungadeildar bandaríkjaþings að því síðar að flest það sem hann sagði átti sér enga stoð í raunveruleikanum.

Eins og Kardashian

Árið 2006 var KSM færður í Guantanamo-fangelsið ásamt fleirum „mikilvægum föngum“. Örfáum mánuðum síðar, fékk Frank Pellegrino loks að yfirheyra manninn sem hann hafði eytt síðustu áratugum í að elta uppi án árangurs.

Pellegrino vildi ekki láta fréttamönnum BBC í té hvað fór þeirra á milli, en hann lýsti KSM sem athyglissjúkum og siðblindum manni sem þráir athygli. Hann líkti honum meðal annars við Kardashian-systurnar frægu.

KSM vildi ræða heima og geima við Pellegrino í sex daga þar til allt í einu að hann fékk nóg og tjáði sig ekki meir. Tilraunir, sem komu í kjölfarið, til þess að rétta yfir KSM mistókust – fyrr en nú.

Teikning af réttarhöldunum yfir KSM frá 7. september síðastliðnum. Fjölskyldur …
Teikning af réttarhöldunum yfir KSM frá 7. september síðastliðnum. Fjölskyldur þeirra sem létust 11. september fylgjast með. AFP

Hugsar til hans á hverjum degi

Réttarhöldin, sem nú eru hafin, yfir Khalid Sheikh Mohammed, verða ein þau lengstu og flóknustu í bandarískri réttarsögu, að því er segir í umfjöllun BBC. Er það meðal annars vegna þess að saksóknarar eru sagðir ætla að fara fram á dauðarefsingu yfir KSM.

Pellegrino gafst þó upp fyrir löngu og má segja að þótt KSM verði fundinn sekur, hafði hann samt sigurorð yfir alríkisfulltrúanum fyrrverandi.

Frank Pellegrino er kominn á eftirlaunaaldur og hefur hætt störfum fyrir FBI. Hafandi farið yfir hálfan hnöttinn í leit sinni að KSM, án árangurs, segist Pellegrino finnast eins og sér hafi mistekist. Hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásirnar 11. september?

„Það líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki til hans,“ segir Pellegrino.

„Tíminn læknar öll sár, en þetta fór bara eins og það fór.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert