Yfirvöld í Íran og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hafa komist að samkomulagi um að leyfa eftirlitsmönnum stofnunarinnar að gera við eftirlitsbúnað vegna kjarnorkuframleiðslu í Íran, en stofnuninni hefur verið meinaður aðgangur að búnaðinum í ár.
Rafael Grossi, forstjóri stofnunarinnar, ferðaðist til Íran í gær, aðeins nokkrum dögum eftir að stofnunin gagnrýndi yfirvöld í Íran fyrir að takmarka aðgengi að eftirlitsbúnaði.
Íran hefur neitað stofnuninni um aðgengi að öryggismyndavélum og öðrum eftirlitsbúnaði sem er staðsettur í mismunandi kjarnorkuverum um allt Íran.
Kjarnorkusamkomulag stærstu ríkja heims og Írans frá árinu 2015 hefur ekki verið virt eftir að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, dró Bandaríkin úr samkomulaginu árið 2018 og setti á viðskiptaþvinganir gegn Íran.
Síðan þá hefur Íran hætt að virða samkomulagið, en ríkisstjórn Joe Biden Bandaríkjaforseta hefur lýst yfir vilja til þess að reyna bjarga samkomulaginu.
Samnkomulagið kvað á um að viðskiptaþvingunum gegn Íran yrði hætt gegn því að Íran breytti kjarnorkuáætlun sinni.