Frans páfi hitti Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, í upphafi stuttrar heimsóknar til Búdapest þar sem hann mun einnig sækja messu.
Í fyrstu ræðu páfans í heimsókn sinni, þar sem hann ávarpaði leiðtoga kristinna og gyðinga, varaði hann við gyðingahatri og sagði það enn leynast í Evrópu og víðar. Þá sagði páfinn bestu leiðina til að vinna gegn gyðingahatri vera að vinna saman og stuðla að bræðralagi.
Gyðingasamfélagið í Ungverjalandi er eitt það stærsta í Mið-Evrópu en þar búa um 100.000 gyðingar.
Skoðanir páfans og Orbans hafa verið taldar stangast á en ungverski forsætisráðherrann er sjálfstæður verjandi „kristinnar Evrópu“ frá innflytjendum á meðan páfinn hvetur fólki til að hjálpa jaðarsettum hópum af öllum trúarbrögðum sem flýja stríð og fátækt.
Fjölmiðlar og stjórnmálamenn sem styðja Orban hafa sakað páfann um að fara gegn kristnum gildum vegna flóttamannaskoðana sinna.
Gagnrýnendur Orbans saka hann um að nota kristni til að ráðast á andstæðinga sína og beita sér gegn viðkvæmum minnihlutahópum eins og innflytjendum. Þá benda stuðningsmenn Orbans á verk hans svo sem ríkisstyrkta hjálparstofnun sem vinnur að endurbyggingu kirkna og skóla í Sýrlandi og sendir lækna til Afríku.
Nokkrum dögum fyrir komu páfans voru sett upp veggspjöld víða í Búdapest, sem stjórnað er af andstæðingum Orbans, en á þeim stóð: „Búdapest tekur á móti heilögum föður“ og voru birtar tilvitnanir hans um samstöðu og umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum.