Þinghúslögreglan í Washington í Bandaríkjunum hefur mæst til þess að sex lögreglumenn þinghússins hljóti refsingu vegna aðgerða þeirra í árás á þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn. Þessi ákvörðun var tekin í kjölfar innri rannsóknar á viðbrögðum lögreglunnar.
CBS greinir frá þessu.
Embættið segir að bandaríska dómsmálaráðuneytið hafi ekki fundið nægar vísbendingar um það að lögreglumenn hefðu framið glæpsamlegt athæfi.
Þó virðist ýmislegt hafa mátt betur fara í löggæslunni þar sem þinghúslögreglan mælist til þess að sex lögreglumenn embættisins sæti refsingu. Þremur mannanna er gefið að sök að hafa sýnt óviðeigandi hegðun. Þá er einum þeirra gefið að sök að hafa ekki farið að fyrirmælum, annar er sagður hafa viðhaft óviðeigandi ummæli og sá þriðji ófullnægjandi upplýsingagjöf.
Ekki hefur verið greint frá því hvers konar refsingu lögreglumennirnir skuli sæta.
„Þessi sex tilvik ættu ekki að draga athylgina frá hetjulegum viðbrögðum þinghúslögreglumannanna sem voru á svæðinu. Hugrekkið sem langflestir lögreglumennirnir sýndu var magnað,“ segir í tilkynningu frá þinghúslögreglunni.