Drepa tugi óbreyttra borgara í Panjshir

Andstæðingar talíbana við eftirlit í Panjshir-dalnum.
Andstæðingar talíbana við eftirlit í Panjshir-dalnum. AFP

Samkvæmt BBC hafa hið minnsta 20 óbreyttir borgarar verið drepnir í Pansjír-dalnum í Afganistan. Dalurinn hefur verið eina svæðið í Afganistan sem talíbanar hafa ekki náð stjórn á en andstæðingar þeirra óskuðu nýverið eftir vopnahléi þar sem þeir höfðu misst talsvert landsvæði til talíbana. 

20 talíbanar skutu einn til bana

Í myndskeiði sem BBC hefur undir höndum úr dalnum má sjá mann í herklæðum umkringdan 20 talíbönum sem skjóta hann til bana. Ekki er víst hvort um hermann NRF, sem sam­an­standa af víga­mönn­um sem eru and­víg­ir talíbön­um og fyrr­ver­andi meðlim­um úr stjórn­ar­her Af­gan­ist­ans, hafi verið að ræða þar sem herklæði séu algeng í dalnum. 

Að sögn heimildamanna BBC hafa um 20 óbreyttir borgarar verið drepnir í sambærilegum aðstæðum. Einn þeirra var verslunareigandi og tveggja barna faðir að nafni Abdul Sami. Hann flúði ekki þegar talíbanar nálguðust hann og sagðist bara vera fátækur kaupmaður sem hefði ekkert með stríð að gera. 

Talíbanarnir handtóku hann fyrir að selja andstæðingum talíbana símkort en nokkrum dögum seinna var líki hans fleygt nærri heimili hans. Sjónarvottar segja áverka á líkinu hafa bent til þess að Sami hafi verið beittur pyndingum. 

Löng saga mótspyrnu

Íbúar í Pansjír-daln­um hafa náð að bægja frá þeim bylt­ing­um og stríðum sem háð hafa verið í land­inu síðustu ára­tug­ina. Allt frá her­sveit­um Sov­ét­ríkj­anna í stríðinu 1979 til 1989 og síðast talíban­anna á tí­unda ára­tug síðustu ald­ar. 

Á síðustu vikum hafa talíbanar hins vegar náð að sölsa undir sig einhver svæði þó erfitt hafi reynst að sannreyna þær yfirlýsingar sem berist frá dalnum. Talsmenn NRF segja það fjarri sanni að talíbanar hafi náð völdum á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka