Efasemdir vakna um sóttvarnaraðgerðir í Kína

Víðtæk skimun á sér nú stað í Putian-borginni þar sem …
Víðtæk skimun á sér nú stað í Putian-borginni þar sem hópsmitið braust út. Myndin var tekin í borginni í dag. AFP

Maður sem sætti þriggja vikna sóttkví við heimkomu er talinn hafa hrundið af stað 60 manna hópsmiti í Fujian-héraði í Kína. Þetta hefur vakið spurningar um virkni og tilverurétt útrýmingarstefnu í sóttvörnum. CNN greinir frá.

Smitið uppgötvaðist þegar synir mannsins undirgengust reglulegt kórónuverupróf í skólum sínum. Þar greindust þeir báðir smitaðir og eru taldir hafa dreift veirunni um skólann. Faðir drengjanna var að koma heim frá Singapúr en hann fór í níu próf á meðan sóttkvínni stóð. 37 dögum eftir heimkomu greindist hann svo smitaður.

Segja flest smit mega rekja til útlanda

Kína er með afar strangt eftirlit á landamærum sínum og skikkar komufarþega í langa sóttkví við komu til landsins. Allt frá því að veiran hóf að dreifa sér í Wuhan í upphafi árs 2020 hefur ríkisstjórnin bendlað öll smit við útlönd. Hvort sem er í gegnum aðkomumenn eða innfluttar vörur.

Settu tugir milljóna í sóttkví

Þetta hópsmit kemur í kjölfar annarrar bylgju smita delta-afbrigðisins í sumar þegar 1.200 manns greindust smitaðir. Þá voru tugir milljóna settir í sóttkví og fjöldaskimun og rakningu beitt til þess að kveða bylgjuna í kútinn. Þó það hafi tekist í ágúst bentu sérfræðingar á að það hefði tekið töluvert lengri tíma en áður.

Þessi nálgun er talin verða dýrari og langdregnari eftir tilkomu hins bráðsmitandi delta-afbrigðis. Önnur ríki í Asíu sem hafa áður beitt svipuðum aðgerðum hafa verið neydd til þess að endurmeta þær og breyta um stefnu vegna hins nýja afbrigðis.

Harðar aðgerðir njóta enn vinsælda meðal Kínverja.
Harðar aðgerðir njóta enn vinsælda meðal Kínverja. AFP

Treysta trú á útrýmingaraðferðina

Kínverska ríkisstjórnin hefur hins vegar flykkt sér á bak við þessa aðferðarfræði og hyllt henni sem afurð sterkrar valdstjórnar. Skólum, veitingahúsum og kvikmyndahúsum hefur því verið lokað í borginni þar sem skólastrákarnir greindust smitaðir og íbúum borgarinnar meinað að ferðast eða yfirgefa héraðið nema brýna nauðsyn beri til.

Þessar hörðu aðgerðir njóta enn nokkurra vinsælda meðal Kínverja en það gæti verið vegna þess að þær ná oftast til tiltölulega lítils hluta íbúafjölda ríkisins sem telur 1,4 milljarða manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert