Fámennt í fyrstu flugferðinni til Kabúl

Áhöfnin gengur frá borði í morgun.
Áhöfnin gengur frá borði í morgun. AFP

Fyrsta farþegaflugvélin til að fljúga til Afganistans í hefðbundnu millilandaflugi síðan talíbanar tóku við völdum lenti í höfuðborginni Kabúl í morgun.

Mikil ringulreið ríkti á flugvellinum eftir að talíbanar náðu völdum í kjölfar þess að erlendar hersveitir yfirgáfu landið. Yfir 120 þúsund manns voru fluttir í burtu frá landinu.

Talíbanar hafa unnið að því að koma starfseminni á alþjóðlega flugvellinum í samt lag aftur og hafa þeir notið tæknilegrar aðstoðar frá Katar og fleiri löndum.

Öryggisverðir taíbana á flugvellinum í Kabúl í morgun.
Öryggisverðir taíbana á flugvellinum í Kabúl í morgun. AFP

„Það var nánast enginn um borð í flugvélinni, í kringum 10 manns ... kannski voru fleiri í áhöfninni en farþegar,“ sagði blaðamaður AFP-fréttastofunnar sem fór með flugvél Pakistan International Airways frá borginni Islamabad.

Það að hefja farþegaflug á nýjan leik til og frá Afganistans verður ákveðin prófraun fyrir talíbana, sem hafa ítrekað heitið því að leyfa Afgönum með réttu skjölin að yfirgefa landið með frjálsum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert