Öllum börnum á aldrinum 12 til 15 ára ætti að vera boðið að fá bóluefni við kórónuveirunni. Ekki á þó að skylda þau til þess að fara í bólusetningu.
Þetta er skoðun háttsettra embættismanna í breska heilbrigðiskerfinu sem eru ráðgjafar fjögurra ríkisstjórna Breta á Englandi, Norður-Írlandi, í Skotlandi og Wales.
Bretland hefur farið einna verst út úr Covid-19 og eru skráð dauðsföll orðin fleiri en 134 þúsund talsins.
Þrátt fyrir að vel hafi gengið að bólusetja í Bretlandi er fjöldi greindra smita enn mikill vegna Delta-afbrigðisins. Embættismenn hafa áhyggjur af því að smitum haldi áfram að fjölga núna þegar skólar eru byrjaðir á ný eftir sumarfrí.
Deilt hefur verið um bólusetningar barna í landinu þrátt fyrir að önnur lönd hafi ráðist í þær.
Nefnd sem veitir breskum heilbrigðisstofnunum ráðgjöf þegar kemur að bólusetningum og ónæmi (JCVI) segir að „kostirnir sem byggjast aðallega á heilsuverndarsjónarmiði teljast ekki vera nægir til að styðja við bakið á bólusetningu allra, annars heilbrigðra barna á aldrinum 12 til 15 ára á þessari stundu“.
En háttsettu embættismennirnir í breska heilbrigðiskerfinu (CMO) segja að bóluefnin eigi að vera í boði eftir að tekin hafi verið til greina önnur atriði á borð við menntun og andlega heilsu.
Segja þeir að bólusetning 12 til 15 ára ungmenna „muni aðstoða við að draga úr Covid-19-smitum í skólum“. Í kringum þrjár milljónir barna gætu þannig fengið fyrsta skammt af bóluefni Pfizer.