„Skelfingu lostin“ yfir stjórn talíbana

Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
Michelle Bachelet, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. AFP

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi í dag nýja bráðabirgðastjórn talíbana í Afganistan, sem einungis er skipuð trygglindum talíbönum og engum konum. 

Í ávarpi sínu fyrir mannréttindaráði SÞ í Genf í dag, sagði Michelle Bachelet að hún væri „skelfingu lostin yfir einsleitni í stjórninni þar sem engin konar er og fáir aðrir en Pashtúnistar.“

Tilkynning um nýja stjórn talíbana í landinu var lokahnykkurinn á valdatöku þeirra í Afganistan í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers af svæðinu. 

Talíbanar voru á árum áður alræmdir fyrir grimmilega ógnarstjórn en hafa lofað bótum og betrun í jafnréttismálum. 

Engu að síður eru allir stjórnunarstólar í stjórn talíbana skipaðir lykilleiðtogum hreyfingarinnar og meðlimum Haqqani-hópsins, sem allajafnan er talinn sá ofbeldisfyllsti á meðal talíbana. 

Bachelet fór með munnlega skýrslu á stöðunni í Afganistan fyrir mannréttindaráðinu og lagði áherslu á að flestir Afganir þrá að sjá fyrir endann á átökum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert