Uppfinningamaðurinn Sir Clive Sinclair lést í morgun á heimili sínu, 81 árs að aldri. Sinclair fann meðal annars upp á fyrsta vasareikninum, en hann hannaði meðal annars Sinclair ZX81 og Sinclair Spectrum-heimilistölvurnar, sem þóttu brautryðjandaverk á sínum tíma.
Sinclair fæddist í Surrey 30. júlí 1940, en faðir hans og afi voru báðir verkfræðingar. Hann vakti fyrst athygli árið 1972 þegar hann fann upp á Sinclair Executive-vasareikninum, sem var einungis 9 millimetra þykkur. Var vasareiknirinn sagður sá fyrsti í heimi sem komst fyrir í vasa, en hann var seldur á 79,95 sterlingspund á þeim tíma, sem í dag væri jafngildi um 165.000 íslenskra króna. Engu að síður var hann helmingi ódýrari en vörur samkeppnisaðilanna.
Árið 1980 gaf Sinclair út ZX80 heimilistölvuna, en kaupendur höfðu val um hvort þeir þyrftu að setja hana saman sjálfir eða fengu hana samsetta. Var það fyrsta tölvan í Bretlandi sem kostaði undir 100 sterlingspundum. Ári síðar kom út ZX81, sem einnig naut töluverðra vinsælda.
Þekktasta uppfinning Sinclairs, Sinclair ZX Spectrum-tölvan, kom hins vegar út árið 1982, en hún varð fljótt mest selda heimilistölvan í Bretlandi og um stund í öllum heiminum.
Sinclair ZX Spectrum-tölvan var vinsæl snemma á 9. áratugnum.
Innra minni tölvunnar var 48 kílóbæti, sem þætti hlægilegt í dag, og forrit á henni voru keyrð upp af kassettutæki, sem mörgum þætti eflaust koma spánskt fyrir sjónir í dag. Tölvan var hins vegar árgali fyrir heimilistölvur og tölvuleiki, og brautryðjandi fyrir aðrar heimilistölvur.
Sinclair beindi athygli sinni að rafbílum, en árið 1985 framleiddi hann Sinclair C5 rafbílinn. C5-bíllinn varð hins vegar að skotspæni, þar sem hann var einungis með opið sæti fyrir einn mann, hafði nær ekkert drægi, og hafði ekki afl til þess að komast upp litlar brekkur.
Um 14.000 C5-farartæki voru framleidd, en einungis um 5.000 þeirra seldust. Fór bifreiðadeild Sinclair-fyrirtækisins fljótlega á hausinn, og tölvudeildin var seld til Amstrad árið 1986.
Á seinni árum einbeitti Sinclair sér að hönnun farartækja, og fann hann meðal annars upp á handhægu létthjóli, sem auðvelt væri að brjóta saman.