Leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, árétti reglu sína í dag um bann við skipulögðum kappleikjum við Ísraela. Hann lofaði því auk þess að styðja við bakið á íþróttamönnum sem væru beittir viðurlögum af alþjóða íþróttasamböndum vegna þessarar reglu.
Íran hefur ekki viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Ísraels sem ríki og íranskir íþróttamenn forðast í lengstu lög að keppa við ísraelska, bæði með því að neita að spila og gefa leiki gegn þeim.
„Engin heiðarlegur Írani getur tekið í höndina á fulltrúa glæpaveldis til þess að fá medalíu,“ sagði Kahmenei á móttöku fyrir íranska Ólympíufara í dag.
Á vefsíðu leiðtogans voru eftirfarandi ummæli birt: „Þessi ólögmæta og blóðþyrsta zíoníska valdstjórn reynir að fá viðurkenningu með því að taka þátt í alþjóðlegum íþróttaviðburðum þar sem drambsamar, vestrænar þjóðir eru meðal gesta. Íþróttamennirnir okkar geta ekki setið hljóðlátir hjá á meðan annað eins á sér stað.“
Íran vann fjölda verðlauna á Ólympíuleikunum í ár, þar á meðal þrjár gullmedalíur og 24 medalíur á Ólympíuleikum fatlaðra.