Joe Biden Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti munu ræða saman símleiðis á næstu dögum vegna þeirrar spennu sem er nú á milli ríkjanna yfir kafbátasamningi Bandaríkjanna og Ástralíu, að aögn talsmanns franskra stjórnvalda.
Fregnir af samtölum forsetanna koma degi eftir að Frakkar höfðu kallað sendiherra sína í Washington í Bandaríkjunum og Canberra í Ástralíu heim, vegna óánægju með leynilegar samningsviðræður sem hafa farið fram milli Bandaríkjanna og Ástralíu. Samningsviðræðurnar leiddu til þess að Ástralir afturkölluðu margra milljarða króna pöntun á frönskum kafbátum.
„Þeir munu eiga samskipti símleiðis á næstu dögum,“ sagði talsmaðurinn Gabriel Attal við fréttastofu BFM og bætti við að beiðnin um viðræðurnar hefði borist frá Biden.
Hann segir að Macron myndi krefja Biden um skýringar eftir að tilkynnt var um varnarsamning Bandaríkjanna, Ástralíu og Bretlands þar sem yfirvöld í Canberra fá að kaupa bandaríska kjarnorkukafbáta og segja upp stórum samningi um frönsk skip.
„Við viljum útskýringar,“ sagði Attal og bætti við að Bandaríkin yrðu að svara fyrir „það sem lítur út fyrir að vera trúnaðarbrestur“.