Raforkufyrirtæki ákært fyrir mannskæðan eldsvoða

Gróðureldar í Kaliforníu í september 2021.
Gróðureldar í Kaliforníu í september 2021. AFP

Raflínur bandarísks raforkufyrirtækis ollu hrikalegum gróðureldum í Kaliforníu árið 2020 þar sem fjórir fórust. Fyrirtækið hefur nú, að sögn saksóknara, verið ákært fyrir manndráp. 

Það kviknaði í rúmlega 22.000 hektara svæði, sem samsvarar um 220 ferkílómetrum, þegar raflínur fyrirtækisins Pacific Gas and Electric rákust utan í tré í september í fyrra.

Saksóknarar segja að tréð, sem var í Shasta-sýslu, hafi verið hættulega nálægt raflínu og hefði þurft að fjarlægja það þremur árum áður.

„Við höfum fullnægjandi sönnunargögn fyrir því það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að fyrirtækið Pacific Gas og Electric beri refsiábyrgð fyrir þátt sinn í skógareldunum og á þeim dauðsföllum og eyðileggingum sem hann olli,“ sagði héraðssaksóknarinn Stephanie Bridgett og bætti við:

„Þessi mistök voru kæruleysisleg og er um glæpsamlegt gáleysi að ræða sem leiddi til dauða fjögurra manna.“ Meðal þeirra látnu var fjögurra ára stúlka. 

Raforkufyrirtækið hefur játað að það hafi verið raflína á þeirra vegum sem rakst utan í tréð sem olli síðan eldsvoðanum en segist þó ekki hafa framið glæp.

Fyrirtækið áður valdið eldsvoða

Fyrirtækið var fundið sekt árið 2018 þegar það olli Camp-eldsvoðanum en eldsvoðinn varð 86 manns að bana og þurrkaði nærri því út bæinn Paradise.

Fyrirtækið kvaðst á þessu ári myndu grafa 16.000 kílómetra af raflínum í því skyni að halda þeim fjarri gróðri. 

Eldsvoðar eru algengir í Kaliforníu. Vísindamenn segja að hlýnun jarðar geri svæðið heitara, þurrara og viðkvæmara fyrir eldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert