Bretar halda áfram að hamstra eldsneyti í þann mund sem ríkisstjórn landsins undirbýr mögulega aðkomu hersins að fraktflutningum.
Skortur hefur verið á vörubílstjórum og flækjustig við fraktflutninga vegna Brexit hefur valdið því að sumar vörur eru ófáanlegar í breskum verslunum.
Samtök eldsneytisbirgja í Bretlandi (PRA) segja að nærri helmingur allra 8 þúsund bensíndæla í Bretlandi séu nú tómar. Langar biðraðir mynduðust á bensínstöðvum, þar sem örvæntingarfullir bíleigendur freistuðu þess að fylla á tankinn.
Talsmaður PRA, Brian Madderson, sagði við BBC að eldsneytisskortur væri aðeins til kominn vegna þess að neytendur hamstri.
Kwasi Kwarteng, viðskiptaráðherra Bretlands, hefur tímabundið fellt úr gildi samkeppnislög um olíufyrirtæki, til þess að tryggja að þau geti haft mikilvægt samráð um hvernig best megi tryggja nægt framboð af eldsneyti.
Samhliða því hefur Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, gefið það út að hann hyggist leita til breska hersins við að flytja eldsneyti á bensínstöðvar landsins.
Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, útilokar ekki að til aðstoðar hersins komi.