Ræddi bann við neyslu hundakjöts

Moon Jae-in flytur ræði á þingi Sameinuðu þjóðanna.
Moon Jae-in flytur ræði á þingi Sameinuðu þjóðanna. AFP

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, ræddi möguleikann á því að banna neyslu hundakjöts í landinu.

Neysla hundakjöts hefur lengi verið hluti af suðurkóreskri matarhefð. Talið er að um ein milljón hunda sé borðuð árlega. Neyslan hefur þó dregist saman því færst hefur í vöxt að fólk vilji frekar eiga hunda sem gæludýr.

Neysla hundakjöts er orðin eins konar tabú hjá yngri kynslóðum í landinu og þrýstingur hefur aukist frá dýraverndunarsinnum um að banna athæfið.

„Er ekki kominn tími til að íhuga að banna neyslu hundakjöts?“ spurði Moon forsætisráðherra Suður-Kóreu, Kim Boo-kyum, á vikulegum fundi þeirra, að sögn talsmanns embættis forsetans.

Moon er þekktur fyrir að þykja vænt um hunda og er hann með þó nokkra slíka á forsetalóðinni, þar á meðal Tory, sem er fyrsti hundur forseta í landinu sem kemur úr dýraathvarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert