Stórfyrirtæki kalla eftir loftslagsaðgerðum

Shell í Brasilíu er meðal stórfyrirtækjanna sem skrifuðu undir opna …
Shell í Brasilíu er meðal stórfyrirtækjanna sem skrifuðu undir opna bréfið. AFP

107 stærstu fyrirtæki Brasilíu þrýsta á stjórnvöld þar til að stíga stærri skref í loftslagsaðgerðum.

Nú er ekki nema mánuður í loftslagsráðstefnuna COP26 sem haldin verður í Glasgow.

Ákváðu fyrirtækin því að taka höndum saman og gefa út opið bréf til stjórnvalda þess efnis að Brasilía ætti að vera virkur þátttakandi í samningaviðræðum tengdum loftslagsaðgerðum.

Brasilíska viðskiptaráðið á sviði sjálfbærrar þróunar (CEBDS), sem samanstendur af þeim fyrirtækjum sem skila 47 prósentum af allri landsframleiðslunni, birti bréfið.

Óttast að metnaðarleysi í loftslagsmálum komi niður á framleiðslunni

Fyrirtækin óttast að ef Brasilía leggur ekki nægan metnað í baráttuna við loftslagsvána, muni það koma niður á framleiðslunni í landinu. Undir yfirlýsinguna skrifuðu mörg þekkt fyrirtæki, til að mynda Carrefour, Shell og JBS, stærsti kjötframleiðandi heims.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur ekki lagt mikla áherslu á loftslagsmál í sinni valdatíð hingað til og það sést á fækkun skóga þar í landi frá 2019, þegar hann tók við embætti.

Græn tækifæri í Brasilíu

Bréfið kallar eftir aðlögun að nýjum hugsunarháttum og baráttu gegn aðför að skóglendi á Amazon-svæðinu sem og öðrum viðkvæmum svæðum Brasilíu.

Fyrirtækin benda á að Brasilía búi yfir gífurlegum möguleikum þegar kemur að kolefnisjöfnun, vegna fjölbreyttrar og gjöfullar náttúru landsins, auðlinda og mannauðs.

Bolsonaro var raunar á sömu bylgjulengd í ræðu sinni á þingi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku. Þar sagði hann að framtíð „grænna starfa“ væri að finna í Brasilíu, með endurnýjanlegum orkugjöfum, sjálfbærum landbúnaði, lágmörkun kolefnislosunar og vatnssóunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert