Rússneska eftirlitsstofnunin Roskomnadzor hótaði í morgun að takmarka aðgengi almennings að Youtube vegna meintrar ritskoðunar.
Stofnunin vísar til þess að Youtube, sem er í eigu Google, hafi lokað á rás þýskrar útgáfu ríkisfjölmiðils Rússa, Russia Today. RT heldur úti rásum á fjölda tungumála sem sjónvarpa áróðri um Rússland og mál sem tengjast landinu. Miðillinn er meðal annars bannaður í Úkraínu, Litháen og Lettlandi.
Með því að loka rásinni telur stofnunin að Youtube hafi gert atlögu að tjáningarfrelsinu.
„Lögin mæla fyrir um aðgerðir sem takmarka, að hluta til eða öllu leyti, aðgengi að miðlinum,“ segir í tilkynningunni frá Roskomnadzor.