Skilaði tómum strigum en tók peninginn

Haaning neitar að hafa framið glæp og fullyrðir að hann …
Haaning neitar að hafa framið glæp og fullyrðir að hann hafi framleitt listaverk. AFP

Danskur listamaður, sem fékk peninga í láni fyrir verk sín, skilaði af sér tveimur stórum strigum og kallaði verkið, „taktu peningana og hlauptu“.

Listamaðurinn, Jens Haaning, fékk tæplega 84.000 danskar krónur, eða tæplega tvær milljónir íslenskra króna, frá listasafninu Kunsten of Modern Art í Álaborg.

Safnið fól honum peninginn fyrir sýningu hans sem bar yfirskriftina „Work it out“ eða „Finndu út úr þessu“. Þá átti hann að nýta peninginn til að endurskapa tvö af fyrri verkum sínum, sem innihéldu seðla sem voru festir á striga og áttu að tákna meðallaun í Danmörku og Austurríki.

Ásamt því að lána honum peninginn fyrir verkið greiddi safnið honum rúmlega 500 þúsund í laun fyrir verkið.

AP fréttastofan greinir frá.

Listaverk Haanings á safninu í Álaborg.
Listaverk Haanings á safninu í Álaborg. AFP

Segir listaverkið vera samningsbrot við safnið

Þegar embættismenn safnsins fengu svo listaverk Haanings í hendurnar, var ekkert á strigunum.

„Listaverkið er að ég hef tekið peningana,“ sagði Haaning í útvarpsþætti á dönsku útvarpsstöðinni P1. Hann neitaði að gefa upp hvar peningarnir væru.

Safnið segir Haaning hafa brotið það samkomulag sem ríkti um hvernig listamaðurinn skyldi nota peningana sem hann fékk lánaða. Hins vegar hefur það ekki enn tekið ákvörðun um hvort það muni tilkynna Haaning til lögreglu, verði peningunum skilað áður en sýningunni lýkur í janúar.

Haaning neitar hins vegar að hafa framið glæp og fullyrðir að hann hafi framleitt listaverk.

„Þetta er ekki þjófnaður, það er samningsbrot og samningsbrotið er hluti af verkinu,“ sagði Haaning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert