Á mánudag mun breskt herlið byrja að dreifa bensíni á bensínstöðvar í Bretlandi. Í tilkynningu frá stjórnvöldum segir að 200 starfsmenn hersins, þar af 100 bílstjórar, muni veita „tímabundna“ aðstoð til þess að draga úr þrýstingi á bensínstöðvarnar.
Á vef BBC segir að stjórnvöld ætli einnig að gera 300 erlendum bílstjórum kleift að starfa í Bretlandi nú þar til lok mars á næsta ári en gríðarlega langar raðir hafa myndast á bensínstöðvum landsins vegna skorts á flutningabílstjórum.
Ráðherrar segja þó áað ástandið fari batnandi og að nú sé orðið meira framboð en eftirspurnin sé á bensíni, ástandið sé þó misgott á milli svæða.
Þá ætla stjórnvöld að veita 4.700 bílstjórum sem keyra með matvæli landvistarleyfi þar til í febrúar og 5.500 alifuglaverkamönnum landvistarleyfi fram að áramótum.