Grace Mugabe, ekkja fyrrum forseta Simbabve, hefur áfrýjað ákvörðun dómara að gröf eiginmanns hennar verði við minnismerki um þjóðhetjur landsins í höfuðborginni Harare.
Grace lagði Robert til hinstu hvílu árið 2019 eftir miklar deilur um hvar grafreitur hans ætti að vera. Nú hvílir hann í garði nálægt heimili hans í bænum Kutama, 90 kílómetrum frá Harare.
Í maí var Grace gert að greiða sekt upp á fimm kýr og tvær geitur fyrir ósæmilega greftrun Mugabes. Þá dæmdi dómstólinn að lík Mugabe yrði grafið upp og fært að minnismerkinu til hinstu hvílu.
Börn Mugabe áfrýjuðu dóminum en dómari féllst ekki á kröfu þeirra í síðasta mánuði á þeim grundvelli að börn hans hefðu ekki lagalegan rétt til þess að áfrýja ákvörðuninni. Grace hefur því komið í stað barna Mugabe.
Robert Mugabe var forseti Simbabve um 37 ára skeið en steig til hliðar tveimur árum áður en hann lést árið 2019.