Fórnarlömb barnaníðinga sem hafa starfað innan kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi frá árinu 1950 eru að minnsta kosti 216 þúsund talsins.
Þetta kemur fram í skýrslu sjálfstæðrar rannsóknarnefndar sem var birt í morgun eftir tveggja og hálfs árs rannsókn.
Þegar starfsmenn á borð við kennara við kaþólska skóla eru taldir með hækkar talan í 330 þúsund fórnarlömb á þessu sjö áratuga skeiði.
Report into sexual abuse in the French Catholic Church has found that at least 216,000 children were victims of abuse at the hands of clergy since 1950 https://t.co/x4TaPddfRY
— RTÉ News (@rtenews) October 5, 2021
„Þessar tölur valda áhyggjum og rúmlega það. Þær ber að fordæma og við þeim verður að bregðast,“ sagði formaður nefndarinnar, Jean-Marc Sauve, á blaðamannafundi.
„Þangað til snemma á fyrsta áratugi þessarar aldar sýndi kaþólska kirkjan gríðarlega mikið og jafnvel grimmilegt áhugaleysi í garð fórnarlambanna,“ sagði hann.
Erkibiskupinn Eric de Moulins-Beaufort, formaður Samtaka biskupa í Frakklandi sem óskuðu eftir rannsókninni, lýsti yfir „skömm og hryllingi“ vegna niðurstöðu skýrslunnar.
„Í dag vil ég biðja hvert og eitt ykkar fyrirgefningar,“ sagði hann á fundinum.