Sonur einræðisherra vill verða forseti

Ferdinand „Bongbong
Ferdinand „Bongbong" Marcos er annar frá vinstri á myndinni, opnar kosningaskrifstofu sína. AFP

Sonur og nafni fyrrverandi einræðisherra Filippseyja, Ferdinand Marcos, ætlar að bjóða sig fram til forseta í kosningum á næsta ári.

Ferdinand „Bongbong“ Marcos yngri, sem hefur stutt við bakið á umdeildu stríði forsetans Rodrigos Dutertes gegn eiturlyfjum og stutt dauðarefsingu fyrir eiturlyfjasala, lýsti framboðinu yfir á Facebook Live.

„Í dag tilkynni ég að ég ætla að bjóða mig fram sem forseta Filippseyja í komandi kosningum í maí 2022,“ sagði Marcos, sem er 64 ára. Bættist hann þar með í stækkandi hóp þeirra sem vilja taka við starfi Dutertes, sem hefur tilkynnt að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur.

Marcos sagðist ætla að verða leiðtogi sem sameinar fólk á nýjan leik í landinu. Hann varð í öðru sæti á eftir dóttur Dutertes, Söru, í nýlegri skoðanakönnun um næsta forseta landsins. Hún hefur neitað því að hafa í hyggju að bjóða sig fram. 

Hefaleikahetjan Manny Pacuiao og borgarstjórinn Francisco Domagoso hafa þegar staðfest framboð sín.

Marcos yngri mistókst að ná kjöri sem varaforseti landsins árið 2016 þegar hann tapaði naumlega fyrir Leni Robredo.

Tapið var mikið áfall fyrir Marcos-fjölskylduna sem fór í útlegð til Bandaríkjanna eftir hrun hennar árið 1986. Marcos eldri og eiginkona hans Imelda voru sökuð um gríðarlega spillingu á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert