Boris boðar betri tíð eftir Brexit

Johnson segir skammvinna erfiðleika þess virði.
Johnson segir skammvinna erfiðleika þess virði. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ávarpaði félaga sína í Íhaldsflokknum á ársfundi flokksins í dag og blés þeim von í brjósti með fögrum fyrirheitum um hvernig venja ætti breskt efnahagslíf af því að nýta sér ódýrt erlent vinnuafl, eftir Brexit, og stýra því til betri vegar. AFP-fréttastofan greinir frá.

Hann gaf lítið fyrir ástandið sem skapast hefur á bensínstöðvum landsins eftir að áhyggjufullir kaupendur hafa flykkst þangað til að tryggja sér eldsneyti, hálftómar hillur í verslunum og varnarorð kaupmanna um að framundan séu dapurleg jól í viðskiptum. Boris sagði þetta skammvinna erfiðleika sem væru þess virði í stóra samhenginu.

Löngu tímabært breyta um stefnu

„Við erum að takast á við mikinn undirliggjandi vanda í hagkerfinu og samfélaginu okkar, vandamál sem enginn ríkisstjórn hefur haft kjark til að takast á við fyrr en nú. Við erum að breyta um stefnu sem var löngu tímabært í breska efnahagkerfinu,“ sagði hann og lofaði því að ekki yrði snúið aftur til þeirra stefnu að leyfa óheft flæði innflytjenda.

Þess í stað yrðu atvinnurekendur að fjárfesta í starfsfólki sínu og tækni og stýra þannig landinu í átt til hærri launa, frekari fagkunnáttu og aukinnar framleiðni í efnahagskerfinu.

Johnson varaði þó við að þessar umbreytingar tækju tíma og á meðan hefði ríkisstjórnin samþykkt að gefa tímabundið út ákveðinn fjölda atvinnuleyfa fyrir flutningabílstjóra og landbúnaðarverkafólk frá Austur-Evrópu. En skortur á verkafólki hefur skapað töluverð vandræði, meðal annars við flutning á eldsneyti.

Ríkisstjórnin vill þó meina að kórónuveiran hafi haft meiri áhrif í þessu samhengi heldur en Brexit nokkurn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert