Alþjóðaheilbrigðisstofnunin heimilaði í dag dreifingu á bóluefni við malaríu eftir hundrað ár af þrotlausum tilraunum. Sjúkdómurinn ræðst helst á börn en nú verður ráðist í bólusetningaherferð um alla Afríku.
Bóluefnið ber heitið RTS,S en rannsóknir sýndu fyrst fram á virkni þess fyrir sex árum síðan. En nú, eftir stærri rannsóknir í Gana, Keníu og Malaví, er stofnunin tilbúin til að mæla með dreifingu bóluefnisins til ríkja, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, með háa smittíðni.
Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir þetta söguleg tíðindi:
„Hið langþráða malaríu-bóluefni fyrir börn er bylting fyrir vísindin, heilbrigði barna og temprun malaríu. Það gæti bjargað lífum tugum þúsunda ungmenna á ári hverju.“
A child dies from #malaria every two minutes.
— World Health Organization (WHO) (@WHO) October 6, 2021
One death is one too many.
🚨 Today, WHO recommends RTS,S, a groundbreaking malaria vaccine, to reduce child illness & deaths in areas with moderate and high malaria transmission https://t.co/xSk58nTIV1#VaccinesWork pic.twitter.com/mSECLtRhQs
Um 230 milljónir greinast með malaríu árlega og af þeim deyja um 400.000. 95% tilfellanna greinast í Afríku þar sem 230.000 börn létust vegna sjúkdómsins árið 2019.
Bóluefnið RTS,S kemur í veg fyrir alvarleg veikindi í 30% tilfella og hefur engin áhrif á aðrar reglulegar bólusetningar eða aðrar ráðstafanir til varnar sjúkdómnum. Auk þess er bóluefnið hagkvæmt í framleiðslu og dreifingu.