Gefa grænt ljós á bóluefni við malaríu

Ung stúlka fær lyf við malaríu á spítala í Búrkína …
Ung stúlka fær lyf við malaríu á spítala í Búrkína Fasó. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin heimilaði í dag dreifingu á bóluefni við malaríu eftir hundrað ár af þrotlausum tilraunum. Sjúkdómurinn ræðst helst á börn en nú verður ráðist í bólusetningaherferð um alla Afríku. 

Bóluefnið ber heitið RTS,S en rannsóknir sýndu fyrst fram á virkni þess fyrir sex árum síðan. En nú, eftir stærri rannsóknir í Gana, Keníu og Malaví, er stofnunin tilbúin til að mæla með dreifingu bóluefnisins til ríkja, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, með háa smittíðni. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir þetta söguleg tíðindi:

„Hið langþráða malaríu-bóluefni fyrir börn er bylting fyrir vísindin, heilbrigði barna og temprun malaríu. Það gæti bjargað lífum tugum þúsunda ungmenna á ári hverju.“

Hundruð þúsunda barna deyja á ári hverju

Um 230 milljónir greinast með malaríu árlega og af þeim deyja um 400.000. 95% tilfellanna greinast í Afríku þar sem 230.000 börn létust vegna sjúkdómsins árið 2019.

Bóluefnið RTS,S kemur í veg fyrir alvarleg veikindi í 30% tilfella og hefur engin áhrif á aðrar reglulegar bólusetningar eða aðrar ráðstafanir til varnar sjúkdómnum. Auk þess er bóluefnið hagkvæmt í framleiðslu og dreifingu.  

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert