Kanslari Austurríkis grunaður um spillingu

Sebastian Kurz á fundi í Berlín.
Sebastian Kurz á fundi í Berlín. AFP

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, sætir rannsókn vegna gruns um að hafa nýtt almannafé til að tryggja sér hagfellda umfjöllun í götublaði nokkru. Þetta kom fram í tilkynningu frá saksóknara í Austurríki í dag.

Yfirvöld framkvæmdu húsleitir á nokkrum stöðum í dag, þar á meðal tveimur ráðuneytum og skrifstofu Kurz. Saksóknarinn segir allavega níu menn til rannsóknar auk Kurz og þrjú félög.

Sagður hafa notað almannafé í skoðanakannanir

Grunur leikur á um að á árunum 2016 og til 2018 hafi fjármunir úr fjármálaráðuneyti Austurríkis verið notaðir til þess að greiða fyrir hagfelldar skoðanakannanir. Þessar skoðanakannanir hefðu eingöngu þjónað pólitískum hagsmunum flokksins og birst í götublaðinu Österreich.

Tímasetning þessara meintu fjárveitinga skarast á við það tímabil þegar Kurz komst til valda í Flokki fólksins og leiddi hann í ríkisstjórnarsamstarf með Frelsisflokknum.

Kurz hefur ekki brugðist við þessum ásökunum en ritari flokksins, Gabriela Schwarz, sagði ásakanirnar „sýndarmennsku“ og margar hverjar fimm ára gamlar. Flokksbróðir Kurz, Andreas Hanger, segir ásakanirnar koma úr vinstri væng skrifstofu saksóknarans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert