Vísindamenn telja að þættir í ónæmiskerfi Covid-sýktra einstaklinga valdi hinni svokölluðu Covid-tá (e. Covid toe).
BBC greindi frá þessu.
Covid-táin er ein af langtímaaukaverkunum Covid-19-sjúkdómsins sem lýsir sér sem rauð eða fjólublá útbrot sem birtast aðallega á tám fólks. Útbrotin geta verið sársaukalaus en stundum myndast bólgur og blöðrur, og finna margir fyrir miklum sviða og kláða. Þá hafa einhverjir kvartað sáran yfir því að geta ekki lengur gengið í skóm vegna þess hve aumir þeir eru.
Rannsakendur skoðuðu 50 einstaklinga með aukaverkunina auk 13 annarra einstaklinga með svipuð útbrot sem ekki mátti rekja til Covid-19 sýkingar.
Í niðurstöðunum kom fram að tveir þættir í ónæmiskerfinu, sem snúa að vörnum líkamans gegn kórónuveirunni, valda því að útbrotið myndast. Annars vegar veirueyðandi próteinið interferón af gerð I og hins vegar mótefni gegn veirunni sem ræðst einnig á frumur og vefi líkamans.
Covid-táin er algengari meðal barna og unglinga en hún hefur birst hjá fólki á öllum aldri. Getur ástandið varað í einhverjar vikur eða mánuði en það fer yfirleitt af sjálfu sér. Stundum gæti þó þurft að meðhöndla útbrotið með kremi og lyfjum.
Telja vísindamenn að staðfesting á orsökinni muni leiða til skilvirkari meðhöndlunar á útbrotinu.
Dr. Veronique Baitille húðsjúkdómafræðingur segir Covid-tána ekki jafn algenga í seinni bylgjum heimsfaraldursins þegar Delta-afbrigðið hefur verið ráðandi. Þetta gæti þó tengst því að bólusetningar eru komnar lengra á leið en áður en heilkennið er minna algengt hjá bólusettum einstaklingum.