Stjórnlagadómstóll Póllands hefur úrskurðað að sum lög Evrópusambandsins (ESB) stangist á við stjórnarskrá landsins. Með þessu tekur Pólland stórt skref í átt að „lagalegu Polexit“, þ.e. pólsku lagalegu útgáfunni af hinu breska Brexit. Þetta gæti haft veruleg áhrif á fjárhag Póllands sem hefur ekki fengið greiddan styrk úr endurheimtarsjóði ESB.
Guardian greinir frá.
Stjórnlagadómstóllinn er umdeildur og hefur lögmæti hans verið dregið í efa í kjölfar þess að fjöldi dómara voru skipaðir í hann sem eru sagðir dyggir þjóðernisflokknum Laga og réttlætis. Dómstóllinn sagði að sum ákvæði sáttmála og úrskurða dómstóla ESB stangist á við æðstu lög Póllands. Þá bætti hann því við að stofnanir ESB fari gjarnan út fyrir valds- og hæfnissvið sitt.
„Þetta er lagaleg bylting,“ sagði René Repasi, prófessor í alþjóða- og Evrópulögum við Erasmus háskóla í Rotterdam.
„Þetta er stærsta skref sem nokkur dómstóll hefur tekið í átt að lagalegri útgöngu úr ESB.“
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var að vonum ekki ánægð með ályktun stjórnlagadómstólsins og sagði að hún valdi „alvarlegum áhyggjum“. Framkvæmdastjórnin áréttaði að lög ESB trompi landslög, þar með talin stjórnarskráratkvæði.
Skoðanakannanir í Póllandi benda til þess að 80% þjóðarinnar styðji veru Póllands í Evrópusambandinu. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórn Póllands sýnt viðleitni til að minnka tengsl landsins og ESB.