Ný DNA-greining, sem framkvæmd var í Austurríki, varð til þess að lögreglan í suðvesturumdæminu í Noregi handtók í byrjun september grunaðan mann í einu voveiflegasta og umtalaðasta manndrápsmáli í manna minnum, máli Birgitte Tengs sem fannst myrt og kynferðislega svívirt í skóglendi á eynni Karmøy úti fyrir Haugesund 6. maí 1995, fyrir rúmum aldarfjórðungi.
Maðurinn, sem nú er grunaður um að hafa orðið Tengs að bana, er á sextugsaldri, en auk þess liggur hann undir grun í öðru óleystu og ekki síður óhugnanlegu manndrápsmáli sem er mál Tinu Jørgensen, tvítugrar stúlku sem hvarf sporlaust í miðbæ Stavanger aðfaranótt 24. september 2000 og fannst myrt mánuði síðar í holræsi við Bore-kirkjuna í Klepp.
Rannsóknir málanna, sem vöktu gríðarlega athygli í Noregi, skiluðu litlu sem engu á sínum tíma. Fjórir æskuvinir Jørgensen voru á tímabili grunaðir auk þess sem mikil leit, eingöngu byggð á teikningu vitnis, var gerð að óþekktum manni í leðurjakka með hári skipt í miðju sem átti að hafa staðið lengi á tali við Jørgensen í miðbæ Stavanger nóttina örlagaríku. Aldrei varð ljóst hver maðurinn í leðurjakkanum var.
Í máli Tengs taldi lögreglan sig hins vegar komna á öruggt spor þegar hún handtók frænda hennar og gekk það mál svo langt að frændinn hlaut 14 ára dóm í Héraðsdómi Karmøy árið 1997 fyrir að stytta frænku sinni aldur. Áfrýjaði hann þeirri niðurstöðu til Lögmannsréttar Gulaþings sem sneri dómi héraðsdóms og sýknaði frændann árið 1998.
Áfrýjunardómstóllinn felldi hins vegar ekki niður þann hluta dómsins í héraði sem sneri að skaðabótagreiðslu frændans til fjölskyldu Tengs. Hann lagði þann hluta málsins fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að lögmannsrétturinn hefði brotið gegn þeirri meginreglu refsiréttar sem á latínu heitir in dubio pro reo og snýr að því að allan vafa í sakamálum skuli meta ákærða í hag. Það breytti hins vegar engu um að skaðabótakrafan stóð óhögguð í Noregi.
Auk þessa reyndi frændinn ellefu sinnum að fá Hæstarétt Noregs til að taka málið upp að nýju og snúa bótahluta dómsins. Hæstiréttur hafnaði málaleitan hans jafn oft. Árið 2019 bar hann málið undir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sem ekki hafði skilað áliti sínu nú fyrir tveimur dögum, í október 2021, þegar lögreglan gaf það út eftir alla þrautagöngu frændans að nú væri ljóst að hann hefði ekki haft neitt með málið að gera. Arvid Sjødin, lögmaður frændans, hyggst nú fá skaðabótahluta málsins endurupptekinn í krafti þeirrar yfirlýsingar.
Lögreglu bárust á sínum tíma um 2.100 vísbendingar um mál Tengs sem allar enduðu í blindgötum. Hin þá nýstofnaða kaldmáladeild norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos, cold case gruppa, komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að ástæða væri til að hefja rannsókn málsins á ný. Sama ályktun var gerð um mál Tinu Jørgensen og hafa endurvaktar rannsóknir nú fætt af sér DNA-skýrsluna nýju frá Austurríki, en rannsóknum á þeim vettvangi hefur fleygt mjög fram síðan 1995.
Maðurinn sem handtekinn var í haust, grunaður um að standa á bak við víg beggja kvennanna, var úrskurðaður í gæsluvarðhald með algjörri einangrun, þar sem hann situr nú.
Norskum fjölmiðlum ber ekki saman um hvort nýja DNA-greiningin snúist um sýni úr mannshári, sem Dagbladet vill meina, eða blóðbletti sem fannst á sokkabuxum Tengs, svo sem VG og Nettavisen telja. Gunn Elin Lode héraðsdómari hefur úrskurðað að eingöngu mjög takmarkaðar upplýsingar um endurupptökumálið verði gerðar heyrum kunnar og þar við situr.
„Við viljum ekki gefa neitt út varðandi það sem þú spyrð um og ekki segja meira um DNA-vísbendinguna en við höfum nú þegar gert,“ segir Fredrik Martin Soma, lögmaður lögreglunnar í suðvesturumdæminu, við blaðamann Nettavisen. „Því síður munum við greina frá þeim rannsóknum sem við höfum framkvæmt gagnvart einstökum persónum, en við höfum verið við rannsóknir og meðal annars yfirheyrt vitni í málinu. En ég segi ekkert meira um þær aðgerðir,“ segir Soma enn fremur.
Er þó vitað að grunaði á sér sakaferil og að sannað telst, svo óyggjandi sé, að hann var í nágrenninu á Karmøy nóttina sem Birgitte Tengs mætti örlögum sínum í maí 1995. Meðal þeirra sem Nettavisen er kunnugt um að lögregla hafi yfirheyrt vegna málsins er fyrrverandi kærasta mannsins og einnig Jorunn Øpsen sálfræðingur, sem grunaði réðst á á heimili hennar árið 1990 og hlaut dóm fyrir árið 1991, auk fjölda vina og kunningja mannsins og annarra sem hann umgekkst á tíunda áratug síðustu aldar.
Almenningur í Noregi fylgist grannt með þessum nýju vendingum í málum Birgitte Tengs og Tinu Jørgensen, stúlkna sem fundust myrtar í Vestur-Noregi með fimm ára millibili fyrir áratugum, og hefur lögreglu þegar borist á sjöunda tug vísbendinga síðan fréttir voru fluttar af handtöku í málunum í byrjaðan september.
NRK
NRKII (frændinn endanlega út úr myndinni)
NRKIII (óttast að grunaði spilli sönnunargögnum)
VG (fundu peningaúttekt árið 2000 á örfilmu)
VGII (fyrrverandi kærastar yfirheyrðir á ný)
Nettavisen (handtakan í haust)
NettavisenII (samantekt málanna)
TV2 (samantekt TV2 sem einnig gerði sjónvarpsþætti um Tengs-málið)