Gríðarleg úrkoma veldur usla í Kína

Jiexiu-borg í Shanxi-héraði undir vatni.
Jiexiu-borg í Shanxi-héraði undir vatni. AFP

Yfir 120 þúsund manns hafa neyðst til að flýja heimili sín í Shanxi héraði vegna flóða og mikillar úrkomu í norðurhluta Kína yfir helgina. Þá hefur kolanámum verið lokað og stór hluti uppskerunnar eyðilagst vegna rigningarinnar.

Hefur úrkoman haft áhrif á um 1,7 milljónir íbúa í héraðinu en um samkvæmt ríkisfréttamiðlinum Xinhua er magn úrkomunnar ríflega þrisvar sinnum meira en meðal úrkomumagn í október fyrri ár.

Talið er að um 190 þúsund hektarar af uppskeru hafi eyðilagst og 17 þúsund byggingar farið í rúst.

AFP

Búist er við enn meiri rigningu á komandi dögum og hafa bændur verið hvattir til að safna saman uppskeru um leið og styttir upp.

Yfirvöld í Kína hafa ekki gefið upp tölu um látna af völdum flóðanna.

Hrædd við rafmagnsleysi

Í júlí varð metfjöldi flóða í Henan-héraðinu og dóu rúmlega 300 einstaklingar vegna þeirra. Vekur úrhellið nú upp áhyggjur um að ekki verði hægt að tryggja næga orku fyrir komandi vetur.

Shanxi er landlukt hérað í Norður-Kína og er veðurfarið þar að jafnaði þurrt. Í síðustu viku hefur hins vegar metúrkoma sett strik í reikninginn og hafa yfirvöld gripið til þeirra ráðstafana að skipa kolanámum að koma upp vörnum gegn flóða og koma á fót neyðaraðgerðaráætlun sem verður virkjuð ef koma skyldi til mikillar hættu.

Björgunarmenn að störfum í Jiexiu-borg í Shanxi-héraði.
Björgunarmenn að störfum í Jiexiu-borg í Shanxi-héraði. AFP

Minnst 60 kolanámur hafa gert hlé á starfsemi sinni vegna hættu, jafnvel þó að landið standi nú frammi fyrir orkuskorti. 

Yfirvöld í Peking hafa nýlega fyrirskipað kolanámum að auka framleiðslugetu til að tryggja birgðir, gegn því að hækka orkuverð. Hafa sérfræðingar áhyggjur að þessi þróun muni ýta undir verðbólgu í landinu. Verð á kolum fer nú sífellt hækkandi samhliða því að rafmagnsleysi fer vaxandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert