Frá og með 1. nóvember ætlar Taíland að hætta að skikka bólusetta einstaklinga, sem koma til landsins frá að minnsta kosti 10 löndum sem Taíland skilgreinir sem lágáhættusvæði, í sóttkví, að því er segir í frétt BBC.
Forsætisráðherra Taílands, Prayuth Chan-ocha, sagði að ákvörðuninni fylgdi nokkur áhætta en að þetta væri nauðsynlegt skref til að endurvekja ferðaþjónustu í landinu.
Meðal þeirra 10 þjóða sem eru talin lágáhættusvæði eru Bretland, Kína, Þýskaland og Bandaríkin.
Þá sagði Prayuth að skemmtistaðir myndu opna aftur 1. desember og þá yrði áfengissala einnig heimiluð. Hann bætti við að þann dag ætluðu yfirvöld einnig að opna Taíland fyrir fleiri löndum.
Ferðamenn frá löndunum 10 munu þurfa að framvísa neikvæðu Covid-prófi við komuna og fara í aðra sýnatöku við komuna til landsins.
Forsætisráðherrann varaði þó við því að ríkisstjórnin kynni að grípa til annarra aðgerða ef að smitum myndi fjölga verulega eða ef nýtt mjög smitandi afbrigði kæmi upp.
Rúmlega 70.000 gestir ferðuðust til landsins á fyrstu átta mánuðum þessa árs samanborið við 40 milljónir allt árið 2019.
Fleiri en 1,7 milljón Covid-19 tilfelli hafa verið staðfest í Taílandi síðan heimsfaraldurinn hófst, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum.