Navalní óskar Múratov til hamingju

Alexei Navalní.
Alexei Navalní. AFP

Alexei Navalní, einn helsti stjórnarandstæðingur Rússlands, sem nú situr í þarlendu fangelsi, óskar Dmitrí Múratov, handhafa friðarverðlauna Nóbels, til hamingju með verðlaunin.

Múratov, ritstjóri óháða blaðsins Novaja Gazeta, sem gefið er út í Rússlandi, hlaut verðlaun fyrir störf sín í þágu tjáningarfrelsis ásamt fillipeysku rannsóknarblaðakonunni Mariu Ressa.

Með allri sál minni óska ég Dmitrí Múratov til hamingju með að hafa unnið friðarverðlaun Nóbels, segir í stuttri orðsendingu á twittersíðu Navalnís.

Navalní var einnig tilnefndur til verðlaunanna í ár og hafa margir, sem standa honum nærri, gagnrýnt ákvörðun Nóbelsnefndarinnar.

Eftir að verðlaunahafar voru kunngjörðir í síðustu viku sagði Múratov að hann hefði gefið verðlaunin Navalní og tileinkað þau þeim sex starfsmönnum blaðsins sem hafa verið myrtir vegna starfa sinna.

Navalní sagði enn fremur á twittersíðu sinni að það væri táknrænt að ristjóri Novaja Gazeta skyldi fá friðarverðlaun Nóbels á 15 ára ártíð Önnu Polikovskaju, eins fremsta rannsóknarblaðamanns í sögu blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert