„Fólk er bara í sjokki hérna“

Hrafnhildur Snæfeld Björnsdóttir, hárgreiðsludama í Kongsberg í Noregi, er í …
Hrafnhildur Snæfeld Björnsdóttir, hárgreiðsludama í Kongsberg í Noregi, er í áfalli eftir atburði kvöldsins. Hér á mynd ásamt börnum sínum, Margréti, sem býr í Gol, Natan Degi, Ósló, Birni Ísak, Drammen, og Aleksander sem býr hjá móður sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Hann var nú bara tekinn hérna á brúnni rétt hjá mér sem liggur frá gamla bænum og yfir í hverfið mitt,“ segir Hrafnhildur Snæfeld Björnsdóttir í samtali við mbl.is, hárgreiðsludama í Kongsberg í Noregi, þar sem fimm liggja nú í valnum auk fjölda særðra eftir að maður fór þar um bæinn og skaut örvum af boga sínum á allt sem fyrir varð, meðal annars í matvöruversluninni Coop Extra sem Hrafnhildur verslar gjarnan í.

Hún er búsett í Tislegård-hverfinu og var skotmaðurinn sem fyrr segir handtekinn á brú sem liggur úr gamla bænum og þangað yfir. „Fólk er náttúrulega bara í sjokki hérna. Ég var reyndar á leið til sonar míns í Ósló akkúrat þegar þetta gerðist og vinkona mín sem var að keyra í sömu átt hringdi í mig og var mikið niðri fyrir, sagði að hún mætti endalausum lögreglubílum og sjúkrabílum,“ segir Hrafnhildur sem hefur búið í Noregi í 14 ár og allan tímann í Kongsberg, en yngsti sonur hennar af fjórum börnum býr hjá henni, hin í Ósló, Drammen og Gol.

„Ég kom heim áðan, ég man varla eftir að hafa keyrt heim. Þetta er svo hræðilegt, þetta er búð sem maður fer í mörgum sinnum í viku,“ segir Hrafnhildur og á við Coop-verslunina þar sem ódæðismaðurinn lét meðal annars til skarar skríða.

Rosalega óþægilegt

„Þetta er alveg hræðilegt, fólk dó hérna í kvöld,“ segir Hrafnhildur felmtri slegin og getur ekki dulið að atburðurinn í Kongsberg í kvöld fær verulega á hana og lái henni hver sem vill. Hún segir Íslendinga á svæðinu hafa verið í miklu sambandi í kvöld til að kanna hvort allir séu heilir á húfi. „Allir eru að senda öllum skilaboð og tékka á hver öðrum,“ segir hún.

Þá segir Hrafnhildur mjög óþægilega tilfinningu fylgja því að vita ekki hvort bogaskyttan hafi verið ein að verki. „Var hann bara einn eða hvað er að gerast, þetta er rosalega óþægilegt,“ segir Hrafnhildur sem treystir sér ekki í vangaveltur um hvort hugsanlega hafi verið um hryðjuverk að ræða eins og norskir fjölmiðlar ræða nú hver í kapp við annan.

„En þessi bær er auðvitað hugsanlegt skotmark fyrir slíkt,“ segir Hrafnhildur og vísar til stórrar hergagnaverksmiðju í þessum 26.000 íbúa bæ sem eðlilega hefur ekki verið óumdeild gegnum árin.

Hrafnhildur ítrekar hve óþægilega henni líði eftir atburði kvöldsins. „Maður veit ekki hvernig stemmningin verður hér á morgun, hvort allt verði lamað, vinkona mín vill ekki senda börnin sín í skólann og fólk er bara mjög hrætt hérna held ég,“ segir Hrafnhildur Snæfeld Björnsdóttir, sjálfstætt starfandi hárgreiðsludama í Kongsberg í Noregi, að skilnaði eftir mannskæðasta voðaverk í landinu síðan Anders Breivik réðst til atlögu fyrir rúmum áratug, 22. júlí 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert