Stjórnarandstaðan í Chile kærði Sebastian Pinera, forseta landsins í dag. Ákæran snýr að umdeildri sölu á námuvinnslufyrirtæki í gegnum fyrirtæki í eigu barna hans, sem kom fram í Pandóruskjölunum, að sögn þingmanns.
Sebastian notaði „skrifstofu sína til persónulegra viðskipta“, sagði þingmaðurinn Tomas Hirsch þegar hann bar ákæruna undir neðri deild þingsins, sem er fyrsta skrefið í ákæruferlinu sem gæti varað í nokkrar vikur.
Ákæran kemur í kjölfar rannsóknar, sem embætti saksóknara í Chile hóf 8. október síðastliðinn, á kröfum vegna sölunnar á námuvinnslufyrirtækinu Dominga, sem átti sér stað á fyrsta kjörtímabili Sebastians árið 2010.
Rannsókn á málinu var opnuð eftir leka Pandóruskjalanna, þar sem alþjóðasamtök blaðamanna (ICIJ) ljóstruðu upp um geysilegar eignir fólks og fyrirtækja í skattaskjólum víða um heiminn.
Sebastian, sem er einn af ríkustu mönnum Chile hefur neitað fullyrðingunum og sagt að hann hafi fulla trú á að dómstólar gætu staðfest sakleysi hans í málinu.
Undir stjórn stjórnarandstöðunnar munu varamenn í landinu þurfa að ákveða hvort ákæran verði samþykkt eða henni hafnað. Atkvæðagreiðsla um málið mun fara fram fyrstu vikuna í nóvember, að því er heimildarmenn þingsins greina frá í samtali við fréttastofu AFP.
Verði ákæran samþykkt fer málið til öldungadeildarinnar sem myndi endanlega dæma í málinu.
Annað forsetakjörtímabil Sebastians hófst í mars 2018 og lýkur 11. mars næstkomandi.
Pandóruskjölin sýna að Sebastian hafi selt fyrirtækið Dominga í gegnum fyrirtæki í eigu barna hans, til viðskiptajöfursins Carlos Delano, sem er jafnframt náinn vinur Sebastians. Fyrirtækið seldi hann á 152 milljónir Bandaríkjadala, eða því sem nemur 19 milljörðum íslenskra króna.
Viðskiptin hafi að stórum hluta átt sér stað á Bresku Jómfrúareyjunum, að því er greint frá í skjölunum.
Þar segir einnig að umdeild ákvæði hafi verið innifalin í kaupsamningnum sem fólu í sér að síðasta greiðsla yrði aðeins framkvæmd gegn því skilyrði að „umhverfisverndarsvæði á starfssvæði fyrirtækisins, eins og umhverfissamtök krefjast, yrði ekki komið á fót“.
Sú ákvörðun fellur undir verksvið forseta Chile.